Innlent

Báturinn sökk mjög hratt

Tveir menn björguðust þegar línubáturinn Ásdís Ólöf sökk skyndilega norðvestur af Siglunesi í nótt. Neyðarkall barst frá bátnum laust fyrir klukkan tvö í nótt í gegnum sjálfvirkt tilkynningaskyldukerfi og reynt var að ná sambandi við bátinn en án árangurs. Sigurvin, björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Siglufirði, var kallaður út sem og þyrla Landhelgisgæslunnar. Einnig voru sjófarendur beðnir um að svipast um, meðal annars fór línubáturinn Óskar þegar á staðinn, en hann var þá staddur út af Skagafirði. Um klukkustund síðar tilkynnti áhöfn Sigurvins að hún sæi neyðarblys og skömmu síðar var búið að bjarga báðum skipverjum Ásdísar Ólafar um borð. Þá maraði Ásdís Ólöf í hálfu kafi. Áhöfnin var að draga síðasta balann þegar báturinn seig skyndilega að aftan og sökk hann hratt. Skipverjum rétt tókst að komast í gúmmíbjörgunarbát og var vistin þar ágæt. Þeir voru allan tímann vissir um að hjálp væri á leiðinni. Ekki er ljóst hvers vegna báturinn sökk en hugsanlegt er að slanga hafi farið ofan í vélarrúmið þannig að sjór flæddi þar inn. Ákveðið var að reyna að draga bátinn til lands. Fyrst var bundið í stefni bátsins en taugin slitnaði. Þá var gripið til þess ráðs að bregða taug aftur fyrir stýrishús Ásdísar Ólafar og þannig tókst að draga bátinn til hafnar og er hann nú kominn upp á bryggju á Siglufirði. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort það borgar sig að gera við hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×