Innlent

Dreginn úr brennandi bíl

Ökumaður lést eftir að hafa fengið hjartaáfall þegar hann ók um Breiðholtsbraut í Víðidal í gærmorgun. Þrír ungir vegfarendur sáu bílinn aka út af veginum og fóru að athuga með ökumanninn. Hann var meðvitundarlaus þegar þeir komu að. "Við ætluðum fyrst ekki að hreyfa við honum fyrr en sjúkrabíll kæmi," sagði Magnús Kristinn Magnússon, einn þeirra sem kom að manninum, en félagi hans hringdi strax í Neyðarlínuna. "Svo byrjaði eldur að loga í bílnum og þá drógum við hann út og svo kom annar maður að sem hjálpaði okkur við að reyna að koma honum til lífs en það gekk bara ósköp lítið." Maðurinn var fluttur á sjúkrahús og lést skömmu eftir komuna þangað. Bíllinn var alelda þegar slökkvilið kom á vettvang og varð allnokkur sinubruni á svæðinu en greiðlega gekk að slökkva eldinn. Slysið varð skammt frá hesthúsunum í Víðidal en þremenningarnir höfðu farið þangað til að slaka á eftir vorpróf. Að sögn lögreglu voru viðbrögð þeirra rétt á slysstað. Ekki er hægt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×