Erlent

Hægri hönd bin Laden

Abu Faraj al-Libbi sem nú er í haldi pakistanskra yfirvalda er talinn vera þriðji hæst setti maðurinn í al-Kaída hreyfingunni. Yfirvöld vonast til að hann veiti mikilvægar upplýsingar um áform og íverustaði félaga sinna. Handtöku al-Libbi í bænum Mardan í norðvestanverðu Pakistan á mánudaginn bar til með ævintýralegum hætti. Þarlendir leyniþjónustumenn íklæddir búrkum, kvenbúningi strangtrúaðra íslamskra kvenna, stöðvuðu mótorhjól hans en þá tók al-Libbi til fótanna og hljóp inn í nálægt hús. Hann bað húsráðendur að skjóta yfir sig skjólshúsi þar sem hann væri "heilagur stríðsmaður" en þá flæmdu leyniþjónustumennirnir alla út með táragasi. Al-Libbi er nú í haldi á ótilgreindum stað og yfirheyra pakistanskir leyniþjónustumenn hann dag og nótt. Tvær spurningar eru lagðar fyrir hann í sífellu: "Hvar er bin Laden?" og "hver eru áform ykkar?" Í fyrstu var al-Libbi þögull sem gröfin en upplýsingamálaráðherra Pakistans sagði í samtali við BBC að hann væri farinn að upplýsa um ýmislegt athyglisvert. Þótt ekkert eiginlegt skipurit sé til í al-Kaída er Abu Faraj al-Libbi talinn næstur völdum þeim Osama bin Laden og Ayman al-Zawahri. Hann var eftirlýstur í Pakistan fyrir að reyna að ráða Pervez Musharraf, forseta landsins, af dögum og voru rúmar tuttugu milljónir króna settar honum til höfuðs. George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur fagnað handtökunni en yfirvöld í Washington hafa eflaust áhuga á að fá al-Libbi framseldan. Pakistanar vilja hins vegar dæma hann sjálfir vegna morðtilraunarinnar við Musharraf. Khalid Sheikh Mohammed, sem áður var þriðji valdamesti maður al-Kaída og var handtekinn fyrir tveimur árum, er í vörslu Bandaríkjamanna og segja yfirvöld að hann hafi gefið mjög mikilvægar upplýsingar um samtökin. Bin Laden og al-Zawahri leika á hinn bóginn enn lausum hala og er talið að þá sé einhvers staðar að finna á hinum fjöllóttum landamærum Afganistans og Pakistans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×