Erlent

Stríðsloka víða minnst

Danir fögnuðu því í gær að sextíu ár eru liðin síðan land þeirra var frelsað undan oki nasista. Í Auschwitz minntust menn hins vegar helfararinnar gegn gyðingum. Í Mindelunden í útjaðri Kaupmannahafnar, garði helguðum minningu þeirra sem fórust í heimsstyrjöldinni síðari, var haldin athöfn þar sem Margrét Þórhildur drottning og Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra minntust sérstaklega þeirra tvö þúsund sjómanna sem dóu í stríðinu. Þar voru einnig hertogahjónin af Gloucester en Bretar veittu dönskum andspyrnumönnum mikinn stuðning á sínum tíma. Í ræðu sinni bað Anders Fogh gyðinga afsökunar á að margir þeirra voru reknir úr landi í upphafi stríðsins. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, ávarpaði minningarsamkomu í Auschwitz-Birkenau, útrýmingarbúðunum alræmdu, í Póllandi í gær. Hann sagði að helförinni mætti aldrei nokkurn tímann gleyma. Mikil hátíðahöld eru fyrirhuguð um helgina vegna sextíu ára stríðslokaafmælisins. Hápunkti sínum munu þau ná í Moskvu á mánudaginn en þar verða yfir fimmtíu þjóðarleiðtogar samankomnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×