Innlent

Hafa ekki undan að flytja inn bíla

Skipafélögin og fraktflug Icelandair hafa ekki undan við að flytja inn fyrir landsmenn nýja og notaða bíla frá Bandaríkjunum. Ótti manna við að bandaríkjadalur haldi áfram að hækka veldur því að ásóknin í að flytja inn bílana hefur sjaldan verið meiri en nú. Það er algeng sjón við Sundahöfn að svæðið sé pakkfullt af innfluttum bílum sem bíða tollafgreiðslu. Segja má að bílaæði hafi gripið landann að undanförnu. Svo mikill hefur innflutningurinn verið frá Bandaríkjunum að skipafélögin og fragtflug Icelandair hafa ekki undan við að flytja bílana til landsins. Og Íslendingum liggur á. Þeir vilja bílana sína strax, ekki síst vegna ótta um að krónan haldi áfram að lækka og bandaríkjadalur að hækka, eins og undanfarna daga, en bílarnir eru tollafgreiddir inn í landið á því gengi dals sem er daginn sem afgreiðslan fer fram hér á landi. Biðtími eftir að flytja hingað til lands bíla frá Bandaríkjunum með flutningaskipi getur verið nokkrir mánuðir ef mikið er að gera en í undirbúningi er að senda hingað bílaflutningaskip til að stytta biðlistana. Kaup á jeppum og pallbílum í Bandaríkjunum hafa verið áberandi en menn telja sig spara hátt í milljón með því að flytja þá hingað með flugi miðað við að kaupa bílana nýja hjá umboðunum hér á landi. Robert Tómasson, sölustjóri Icelandair Cargo, segir að frá miðju síðasta ári hafi orðið mikil aukning á innflutningi bíla frá Bandaríkjunum og eftirspurnin sé mikil. Frá áramótum hafi félagið ekki getað annað eftirspurn. Fimm til sjö bílar séu fluttir í hverri viku frá Bandaríkjunum en að jafnaði bíði 30-40 bílar þannig að biðtíminn sé fimm til sex vikur. Róbert segir að menn reyni að þrýsta á um að fá bílana fyrr heim fyrr. Þeir reyni að ná þeim inn á meðan gengi dollarans sé lágt en hafi nú áhyggjur af því að gengið hækki því þurfi þeir að borga hærri tolla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×