Innlent

Hnúfubakur í Reykjavíkurhöfn

"Þetta er í fyrsta sinn sem ég veit til þess að stórhveli hafi komið inn í höfnina hér í Reykjavík," segir Einar Örn Einarsson, skipstjóri á hvalaskoðunarskipinu Eldingu. Einar sem er vanur að þurfa að fara langt út á Faxaflóa til að sýna ferðamönnum stórhveli þurfti vart að snúa bát sínum við í gærmorgun en þar var 8 til 10 metra langur hnúfubakur á ferð. Innkoman í höfnina í Reykjavík er grýtt mjög og erfið og ekki heiglum hent að komast þar inn fyrir þá sem ekki þekkja en hvalurinn virtist kunna ágætlega við sig og rataði auðveldlega út aftur eftir hádegið. Taldi Einar að dýrið hefði verið að fá sér æti. "Aðstæður hér í höfninni eru orðnar allt aðrar og betri en áður var og ekkert tiltökumál fyrir stærri dýr að næla sér í bita hér." Vakti hvalurinn mikla athygli og lukku meðal ferðamanna sem sumir hverjir koma gagngert til landsins til að líta þessi dýr augum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×