Erlent

Hundrað milljón börn án skólagöngu

100 milljónir barna víða um heim fara á mis við skólagöngu og stúlkur eru þar í yfirgnæfandi meirihluta. Ástandið virðist þó heldur vera að lagast en betur má ef duga skal. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, birti í gær skýrslu um skólagöngu barna víða um heim. Samtökin telja að um eitt hundrað milljónir barna hljóti ekki menntun af neinu tagi, samanborið við 115 milljónir árið 2001. Þótt örlítið hafi miðað áfram segja forsvarsmenn samtakanna að þjóðir heims verði að leggjast á árarnar, eigi markmið SÞ um að allir njóti lágmarksmenntunar árið 2015 að nást. Mun færri stúlkur en drengir sækja skóla og það veldur forsvarsmönnum UNICEF sérstökum áhyggjum. Ástandið er slæmt í Mið-Austurlöndum, Vestur- og Mið-Afríku og sunnanverðri Asíu. Í Afganistan og Pakistan er aðgangur stúlkna að skólum sérstaklega bágborinn. Stríðsátök hafa sitt að segja í þessum efnum og ekki þarf að koma á óvart að fátækt stendur oft skólagöngu barna fyrir þrifum. Þannig segir í skýrslunni að telpur sem koma frá fátækustu heimilunum séu þrefalt líklegri til að fara á mis við skólagöngu en kynsystur þeirra sem búa við betri kjör. "Menntun snýst ekki bara um að læra hluti," sagði Carol Bellamy, framkvæmdastjóri UNICEF, þegar hún kynnti skýrsluna. "Í mörgum löndum getur lágmarksmenntun skilið á milli feigs og ófeigs, sérstaklega þegar stúlkur eiga í hlut. Stúlkur sem eru ekki í skóla eru líklegri til að smitast af alnæmi og síður líklegar til að geta stofnað heilbrigða fjölskyldu seinna meir." UNICEF bendir á að í sumum ríkjum Evrópu sé staðan jafnframt slæm fyrir stúlkur og eru Tyrkland og Hvíta-Rússland sérstaklega nefnd. Skólagjöld og kostnaður við bækur og skólabúningar eru sögð orsakir þess að stúlkur flosni upp úr námi í þessum löndum. Að sögn BBC hefur breska ríkisstjórnin þegar lofað að verja 168 milljörðum króna á næstu þremur árum í að aðstoða fleiri stúlkur við að afla sér menntunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×