Erlent

Ástandið í Madain óljóst

Helmingur gísla sem haldið var í bæ í Írak fékk frelsi að lokinni hernaðaraðgerð í dag. Hvorki íbúar né lögreglan í bænum kannast hins vegar við að nokkrum hafi verið rænt. Ástandið í Madain er vægast sagt dularfullt. Fullyrt er að hópur súnníta hafi rænt á bilinu 60 til 150 sjítum og hóti að drepa þá hverfi ekki allir sjítar frá svæðinu innan sólarhrings. Lögreglan í bænum gerir þó lítið úr málinu og íbúar þar kannast ekki við neitt. Þeir segja fólk lifa þar í sátt og öryggi og að aðkomumenn standi fyrir óhæfuverkum eins og gíslatöku. Súnnítar og sjítar tengist þeim ekkert heldur lifi í sátt og samlyndi í bænum. Í yfirlýsingu frá al-Qaida í Írak er því hins vegar haldið fram að ekki sé einn einasta gísl að finna í Madain. Sagan sé uppspuni og til þess fallinn að réttlæta árás hersetuliðsins á bæinn og súnníta eins og gert var í Fallujah. Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, kenndi al-Qaida hins vegar um og sagði mannráninu ætlað að valda trúarbragðastríði og átökum. Hersveitir umkringdu í gærkvöldi Madain og bjuggu sig undir áhlaup. Í morgun var svo ráðist á hluta bæjarins og þar leitað bæði mannræningja og gísla. Hermt er að fimmtán fjölskyldur hafi verið leystar úr haldi í þeirri aðgerð og að nokkrir súnnítar séu í haldi. Óljóst er hvort enn fleiri gíslar eru í haldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×