Erlent

Páfakjör hefst á morgun

Rottweiler guðs gæti orðið næsti páfi sé eitthvað að marka sögusagnir í Róm. Hundrað og fimmtán kardínálar eru leikmennirnir í valdatafli sem fram fer í Páfagarði milli íhaldssamra og frjálslyndari kaþólikka. Svona lítur það út á morgun, þegar hundrað og fimmtán kardínálar koma saman í Sixtínsku kapellunni og velja næsta páfa. Klæddir skarlatsrauðum skikkjum halda þeir til fundar og loka sig inni þar til niðurstaða hefur fengist. Áður en atkvæðagreiðslan hefst verða kardínálarnir að sverja eið um þagmælsku. Því næst ritar hver þeirra nafn þess sem þeir telja að ætti að verða næsti páfi á miða og leggja í stóran kaleik. Um leið og atkvæði hafa verið talin er kveikt í atkvæðaseðlunum í sérstökum brennara sem komið er fyrir inni í kapellunni. Hafi fengist niðurstaða er reykurinn hvítur og kirkjuklukkur hringja en annars er litarefni bætt í til að reykurinn verði svartur. Fjölmiðlar víða um heim segja einn kardínála líklegri en annan til að verða kjörinn páfi en engir tveir fjölmiðlar nefna þann sama og því er erfitt að spá í spilinn. Þó virðist einn öðrum fremur vera umdeildur, þýski kardínálinn Joseph Ratzinger. Hann er einn æðsti embættismaður Páfagarðs og var náinn Jóhannesi Páli öðrum. Hann þykir ákaflega íhaldssamur, gengur undir nöfnum eins og rottweiler guðs og skriðdrekinn. Ekki síst af þessum sökum er talið víst að 40 íhaldssamir kardínálar veiti honum brautargengi. Í heimalandinu Þýskalandi nýtur hann hins vegar ekki stuðnings heldur leiddi könnun fréttatímaritsins der Spiegel í ljós að fleiri voru honum mótfallnir en hlynntir. Hugsanlega spilar inn í fréttaflutningur af því að hann hafi í æsku tilheyrt Hitlers-æskunni þó það hafi að vísu verið í stuttan tíma þegar ungmenni í Þýskalandi voru skyldug til þess. Það sem flækir málið mjög er að kardínálum er með öllu bannað að sækjast eftir embættinu og raunar er sagt að hver sá kardínáli sem fari á páfakjörfund í von um að verða páfi komi út af fundinum kardínáli. Aðeins tveir kardínálanna, sem taka þátt í valinu á næsta páfa, hafa gert það áður og fæstir þekkjast þeir innbyrðis. Fyrir vikið fellur það nokkrum áhrifamönnum í skaut að stýra valinu á bak við tjöldin. Þeir eru í raun eins konar kosningastjórar og ljóst er að Karol Wojtyla frá Waduwice í Póllandi hefði aldrei orðið páfi nema fyrir tilstuðlan þessara áhrifamanna. Þrátt fyrir þagnareið beita áhrifamennirnir fjölmiðlum grimmt og leka í þá upplýsingum. Þeir hafa líka sést á hádegisverðarfundum um alla Róm undanfarna viku. Kjörfundurinn hefst á morgun og þó að valinn sé æðsti leiðtogi kaþólsku kirkjunnar, fulltrúi guðs á jörðu, ber valið keim pólitískra hrossakaupa dauðlegra á jörðinni en ekki dýrðlegs innblásturs af himnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×