Erlent

Biðjast ekki afsökunar á mótmælum

Deilur Kínverja og Japana eru enn í hnút eftir fund utanríkisráðherra landanna í Peking í dag. Li Zhaoxing, utanríkisráðherra Kína, lýsti því yfir í dag að Kínverjar þyrftu ekki að biðjast afsökunar á mótmælum gegn japönskum stjórnvöldum í Kína undanfarnar þrjár helgar. Þar hafa æfir Kínverjar ætt um götur vog mótmælt nýrri japanskri kennslubók í sögu og segja að þar sé reynt að breiða yfir grimmdarverk Japana gagnvart Kínverjum í síðari heimsstyrjöldinni. Ráðist hefur verið gegn eigum Japana í Kína og hefur utanríkisráðherra Japans lýst yfir miklum áhyggjum af þeim sökum og krafist þess að kínversk stjórnvöld taki í taumana. Samskipti þjóðanna hafa ekki verið stirðari í áratugi, en deilan er einnig sögð snúast um áhrif í Austur-Asíu. Mótmælin héldu áfram í morgun í nokkrum borgum og safnaðist fólk m.a. saman við útibú japanskra fyrirtækja og við ræðismannskrifstofur Japana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×