Erlent

Aðskilnaður eður ei í Baskalandi

Aðskilnaður eður ei er spurningin sem kjósendur í Baskalandi á Spáni svara að líkindum í þingkosningum sem fram fara í dag. Litið er á kosningarnar sem mælikvarða á stuðning við hugmyndir sitjandi forsætisráðherra Baskalands, en þær gera meðal annars ráð fyrir því sem í raun er sjálfstæði. Juan Jose Ibarretxe forsætisráðherra segir að gengju hugmyndirnar eftir þýddi það endalok átaka aðskilnaðarsinna. Sjálfsstjórnin færði baskneskum stjórnvöldum meðal annars meira vald yfir skattamálum, dómstólum og utanríkissamskiptum en Baskaland yrði þó ekki sjálfstætt. Stjórnvöld í Madríd hafna hugmyndunum með öllu og segja þær brot á stjórnarskrá Spánar. Kannanir sýna að stuðningur við stjórnarflokk forsætisráðherrans er það mikill að litlar líkur eru á að skipt verði um stjórn. Flokkurinn hefur enda verið við völd síðan árið 1980 þegar kosið var á baskneskt þing í fyrsta sinn. Fast á hæla stjórnarflokks forsætisráðherrans, sem berst fyrir sjálfstæði, fylgja stóru spænsku flokkarnir, Jafnaðarmannaflokkurinn og Þjóðarflokkur Aznars, fyrrverandi forsætisráðherra Spánar. 75 þingsæti eru í boði og kjörsókn gæti ráðið miklu, einkum hlutfall Baska og Spánverja sem mæta á kjörstað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×