Erlent

Yfirvöld geta illa hamið almenning

Tugþúsundir Kínverja létu ófriðlega og lögðu japanskar stofnanir í rúst í dag. Kínversk yfirvöld virðast eiga erfitt með að hemja reiði almennings. „Burt með japönsku svínin,“ hrópuðu mótmælendur sem létu ófriðlega víðs vegar í Kína í dag, aðra helgina í röð. Tugir þúsunda voru á götum borga og bæja og réðust á allt sem tengdist Japan með einhverjum hætti. Óeirðalögregla lét þó mótmælendurna ekki alveg óáreitta eins og í síðustu viku þó að aðgerðir hennar nú virtust litlu breyta. Í morgun köstuðu mótmælendur grjóti og flöskum að japönsku ræðismannsskrifstofunni í Shanghai og virtist Japönum mjög brugðið við það. Stjórnvöld í Tókýó mótmæltu harðlega. Nobutaka Machimura, utanríkisráðherra Japans, sagðist ekki hafa fengið nákvæmar upplýsingar um málavexti en hann teldi engu að síður að öryggisgæslan hjá kínverskum stjórnvölvum hefði ekki verið næg því skemmdir hefðu verið unnar á japanska sendiráðinu. Heimsókn japanska utanríkisráðherrans til Kína í næstu viku verður ekki aflýst þrátt fyrir atburðina en Japanar krefjast þess að kínversk stjórnvöld grípi til aðgerða þegar í stað. Ástæða þessara mótmæla er japönsk kennslubók þar sem Kínverjum þykir sem reynt sé að fela grimmdarverk Japana í seinni heimsstyrjöldinni. Stjórnvöld í Peking sjá sér þó einnig leik á borði að koma höggi á Japana og hindra fyrirætlanir þeirra um að fá fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kínverjum myndi líka það afar illa, en Kína keppir við Japan um áhrif í Austur-Asíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×