Erlent

Fleiri á hóteli en leyfilegt var

Miklu fleiri en leyfilegt var gistu á hótelinu í París sem brann til kaldra kola í gær. Félagsmálayfirvöld höfðu komið svo mörgum fyrir á hótelinu og um alla Parísarborg gista innflytjendur í sambærilegum eldgildrum. Nú liggur fyrir að 21 fórst í eldhafinu á Paris-Opera hótelinu sem brann í gær og rannsóknarmenn á vettvangi óttast að finna fleiri rík í rústum hótelsins. Laurent Vibert, talsmaður slökkviliðs Parísar, segir að við frekari leit síðustu nótt hafi einn til viðbótar fundist látinn sem þýði að fórnarlömbin séu 21. Heildarfjöldi látinna sé þó ekki ljós því leit sé ekki lokið. Vibert segir leitina ganga hægt því burðarvirki efri hæða hótelsins sé mjög veikburða. 32 herbergi voru á hótelinu og þar mátti 61 gista. En samkvæmt lista félagsmálayfirvalda, sem komið höfðu fjölda innflytjenda fyrir á hótelinu, voru gestirnir nærri því 90. Talan er nokkuð á reiki. En þetta er ekki eina dæmið um slíkt. Um alla borg eru innflytjendur á sambærilegum hótelum, sannkölluðum brunagildrum þar sem eldvarnir eru litlar. Fjölskylda ein hefur búið í sama hjallinum í fimm ár og þó eru þau öll með landvistarleyfi og vinnu. Þau segja að yfirvöld í París og fólk almennt vita að þau dvelji þarna. Hins vegar viti þau ekki að álagið er stöðugt í íbúðinni vegna framkvæmda í kring. Yfirvöld segist hafa boði þeim önnur úrræði og segi að þau hafi alltaf neitað að flytja. Hið rétta sé að fjölskyldan hafi verið í íbúðinni í fimm ár og hafi aldrei verið boðið neitt annað. Á ellefta þúsund innflytjenda, flestir þeirra frá Afríku, býr á hótelum þar sem fjölskyldum er troðið saman í herbergi, þjónustan er engin, eldunaraðstaðan er engin, þvottaaðstaðan er ekki fyrir hendi og svo mætti lengi telja. Hótelin stórgræða en í fyrra var kostnaðurinn fyrir hið opinbera vegna þessara skammtímalausna 8,8 milljarðar króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×