Skoðun

Stefnumerkja- og ljósanotkun

Umferðarmenningin - Össur P.Valdimarsson, bifreiðastjóri Ekki er ætlunin að koma af stað illindum með skrifum mínum heldur vil ég benda fólki í umferðinni á hluti sem hægt er að laga. Undirritaður er atvinnubílstjóri (það þarf ekki að þýða að ég sé betri en hver annar í umferðinni) og verð ítrekað var við að margir aka án aðalljósa eða einungis með annað aðalljósið í lagi. Ég vil ekki trúa því að eigendur þessara bifreiða sem svona er ástatt með séu að spara rafmagnið og/eða finnist perurnar of dýrar, heldur frekar að gleymst hafi að tendra ljósin (fyrir hefur komið að ég hafi gleymt að kveikja aðalljósin og kveikt eftir að hafa fengið merki frá umferð á móti), en það eru ekki allir jafnviljugir að tendra ljósin þótt þeim hafi verið gefið merki um ljósleysið. Svo eru nokkrir bifreiðastjórar sem nenna ekki að gefa stefnumerki þegar við á. Ég vil ekki trúa því að bílstjórar hafi gleymt því að gefa stefnumerki áður en beygt er vegna þess að það á að vera skylda að gefa stefnumerki tímanlega. Ég vil skora á lögregluna að fylgja þessu betur eftir. Gatnakerfi bæjarfélaganna má vera betra, þó að gatnakerfin hafi lagast mikið að undanförnu vantar samt mikið upp á svo vel megi við una. Ég nefni ekki nein nöfn en mega þau bæjarfélög sem þetta á við taka þessi orð til sín, en þetta á við þau flest. Kærar kveðjur, með von um bætta og betri bílstjóra í umferðinni og betri götur til að aka á í bæjarfélögum landsins.



Skoðun

Sjá meira


×