Innlent

Dýrahátíð í Reiðhöllinni

Troðfullt var í reiðhöllinni í Víðidal í dag á mikilli dýrahátíð sem þar var haldin. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá, auk þess sem hunda- og kattaræktarfélög Íslands kynntu gestum og gangandi mismunandi tegundir dýranna. Fjölbreytnin var mikil: bolabítar, chihuahua, huskie, alls konar spaníelar, púðluhundar og fleiri og fleiri. Lögregluhundurinn Skolli sýndi meðal annars hvers vegna hann var ráðinn í vinnu hjá lögreglunni með því að elta uppi mann sem lék glæpamann og sneri hann niður. Íslenski hesturinn var líka áberandi, gestum var sýndur munur gangtegunda og minnstu gestirnir fengu að fara sjálfir á bak undir öruggri handleiðslu hestamanna. Stoltir eigendur mismunandi hundategunda flögguðu sínum dýrum og ungviðið kunni ekki síður að meta þá en hestana. Þetta er í annað sinn sem svona dýrahátíð er haldin í Víðidal en það var VÍS sem stóð fyrir henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×