Innlent

Stórar umbúðir utan um lítið

Össur Skarphéðinsson gefur ekki mikið fyrir hugtakið umræðustjórnmál og segir það ofnotað. Hann segir Framtíðarhóp Samfylkingarinnar fámennan og lokaðan hóp. "Þetta er ekki rétt hjá Össuri, en ég ætla að geyma það að tjá mig opinberlega um þessi ummæli hans þar til ég hef kynnt mér þau betur og skoðað þau í samhengi," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um þau ummæli Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, að framtíðarhópur flokksins sé lokaður og fámennur hópur sem engar nýjar hugmyndir hafi lagt fram. Össur lét þessi orð falla í sjónvarpsþætti Egils Helgasonar í gærdag. Ingibjörg var stödd vestur á fjörðum og segist ekki hafa séð eða heyrt ummæli Össurs, aðeins fengið ávæning af þeim. Þorbjörn Guðmundsson hjá Samiðn sem verið hefur í Framtíðarhópnum frá upphafi og á sæti í sex manna kjarnahóp hafði þetta um ummæli Össurar að segja: "Mér finnst þetta ekki svaravert og lýsi depurð minni yfir þessari nálgun míns ágæta formanns". Fram kom í máli Össurar að hann mæti það svo að hópurinn hefði ekki lagt fram neinar nýjar hugmyndir, nema "skyndibitalausnir" í menntamálum, eins og að einkavæða hverfagrunnskóla, sem hann og flokkurinn væru á móti. Þá sagði Össur Ingibjörgu leggja ofuráherslu á orðið umræðustjórnmál, sem væru ofnotaðar og stórar umbúðir utan um lítið. Hann sagði að æskilegra hefði verið ef vinna hópsins hefði verið opnari og ekki lokuð í fámennum hópum sem meðal annars hafi leitt til þess að Guðmundur Árni Stefánsson sagði sig úr utanríkismálanefnd Framtíðarhópsins, því honum líkaði ekki vinnubrögðin. Guðmundur Árni staðfesti í samtali við Fréttablaðið að hann hafi sagt sig frá frekara starfi innan hópsins vegna þess að hann var ekki sáttur við að hópurinn ætti að skila tillögum sínum af sér fyrir landsfund, en ekki móta tillögur til lengri tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×