Innlent

Ekki til fyrirmyndar

Auglýsingar frá Umferðarstofu hafa vakið mikla athygli undanfarið og í nýrri herferð er markmiðið að gera fólk meðvitað um hegðun sína í umferðinni. Í auglýsingunum sjást börn hafa eftir hegðun sem þau læra af foreldrum sínum undir stýri. Athygli vekur að drengur sem eys fúkyrðum yfir leiksystur sínar og sést svo hlýða á umferðarorðræður föður síns er ekki í barnabílstól. "Mér skilst að barnið sé með sessu undir sér þótt það sjáist ekki enda er ekki verið að fræða fólk sérstaklega um öryggi barna í bílum þó setja megi út á hvernig beltið liggur yfir maga barnsins. Auglýsingin sýnir hegðun sem ekki er til fyrirmyndar, hvort sem varðar aksturslag eða öryggisþætti," segir Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu. "Best hefði auðvitað verið að barnið væri í bakvísandi bílstól." Hann segir viðbrögð við herferðinni bæði jákvæð og neikvæð. "Sumum finnst skiljanlega óþægilegt að heyra börn viðhafa slíkan munnsöfnuð en hér er verið að sýna framkomu sem því miður mjög margir viðhafa í umferðinni. Við erum að ala upp ökumenn framtíðarinnar og þurfum að vera þeim góð fyrirmynd."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×