Innlent

Bæjarstjórinn fær víkingatign

Einstaklingar á Akureyri hafa hug á að halda fjölþjóðlega víkingahátíð í bænum í júní, svo fremi að fjármögnun gangi eftir. Kostnaðurinn er um fimm milljónir króna og hefur bæjarráð Akureyrar ákveðið að styrkja hátíðina með 400 þúsund króna framlagi. Stefnt er á að 50 til 60 víkingar, innlendir og erlendir, komi til Akureyrar og efni til bardaga að fornum hætti, auk þess sem þeir munu sýna járn- og silfursmíði. Hugmyndin er að Víkingahátíðin á Akureyri verði haldin helgina eftir að Hafnfirðingar blása til sinnar árlegu víkingahátíðar. Jóhannes Viðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjörukráarinnar í Hafnarfirði, segist vona að Akureyringar nái að tryggja fjármögnun svo hægt verði að halda hátíðina á Akureyri. „Gangi það eftir munu hátíðarnar styrkja hvor aðra í framtíðinni og fjármögnun beggja verður auðveldari. Á Sólstöðuhátíð Víkinga í Hafnarfirði í sumar ætla ég að gera bæjarstjórann á Akureyri að heiðursvíkingi, enda eru Akureyringar og Hafnfirðingar í góðu vinabæjarsambandi," segir Jóhannes.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×