Innlent

Tedrykkja yfir brúðkaupinu

Brúðkaupi Karls Bretaprins og Camillu Parker Bowles var fagnað víða í dag. Stjórn Hins konunglega fjelags á Íslandi kom til dæmis saman til tedrykkju yfir sjónvarpsútsendingu frá brúðkaupinu. Hið konunglega fjelag hefur það fyrir sið að fylgjast með stóratburðum í lífi kóngafólksins og brúðkaup Karls og Camillu er auðvitað stórviðburður. Félagsmenn eru greinilega á ýmsum aldri, yngsti meðlimurinn er fimm mánaða sonur hirðsiðameistarans og lúðurþeytarans. Kammerjómfrúin, Eyrún Ingadóttir, var ánægð með athöfnina í dag; segir hana hafa verið yndislega, ákaflega fallega og að fallegir hattar hafi sést. „Þetta er bara ástarsaga aldarinnar - og þau eru komin í höfn,“ segir Eyrún. Fjelagið sendi þeim nýgiftu ekki heillaskeyti en stóð þess í stað fyrir kvæðakeppni sem Einar Kolbeinsson, sauðfjárbóndi í Húnaþingi, vann. Fjölmörg kvæði bárust og segir Eyrún valið hafa verið erfitt. Verðlaunin eru auðvitað innrömmuð mynd af þeim hjónum. En Karl og Camilla hafa verið skotspónn gárunganna um nokkurt skeið og því mætti kannski ætla að einhver kvæðin hafi verið ósiðleg. Eyrún jánkar því að vissu leyti, a.m.k. hafi sumir haft nokkuð húmoríska sýn á brúðkaupið. Eyrún segir Hið konunglega fjelag vera ákaflega blómstrandi félagsskap. Félagsmenn séu margir en þónokkrir séu „leynifélagar“ því þeir vilji ekki vera á opinberri skrá fjelagsins. „Við mælum eindregið með því. Ef fólk vantar áhugamál þá er þetta eitt af þeim betri,“ segir Eyrún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×