Sport

Norwich lagði Manchester United

Lið Norwich náði sér í dýrmæt stig í botnbaráttunni áðan það gerði sér lítið fyrir og lagði Manchester United 2-0 á heimavelli sínum. Gestirnir frá Manchester réðu ferðinni á miðjunni lengst af í leiknum, en náðu ekki að nýta sér færi sín. Það gerðu hinsvegar leikmenn Norwich, sem með mörkum frá Dean Ashton og Leon McKenzie, náðu sér í gríðarlega mikilvæg stig í botnslagnum, sem nú er að verða mjög æsilegur. Manchester United gerði allt sem það gat til að jafna leikinn og tjaldaði öllu sínu með Ruud van Nistelrooy, Alan Smith og Wayne Rooney í framlínunni, en allt kom fyrir ekki og varnarmenn Norwich áttu stórleik í dag. Þetta tap gerir það að verkum að United á litla sem enga möguleika á meistaratitlinum í ár, en þeir voru litlir fyrir leikinn. Ekki bætti úr skák fyrir United að Luis Saha fór meiddur af velli í leiknum, en hann var að stíga upp úr meiðslum og gerði sér vonir um að geta náð fullum styrk á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×