Innlent

Vitleysa að stunda sauðfjárbúskap

Það er hagfræðileg vitleysa að stunda sauðfjárbúskap á Íslandi, segir formaður sauðfjárbænda. Fjórtán prósenta söluaukning kindakjöts innanlands á síðasta ári skapar þó von um betri hag en um leið áhyggjur af skorti á kjöti fyrir vaxandi markaði erlendis. Sextíu bændur hafa að jafnaði hætt sauðfjárbúskap á hverju ári frá því fjárfjöldi var mestur á árunum fyrir 1980. Þá voru um 900 þúsund fjár voru í landinu, en hefur nú á aldarfjórðungi fækkað um helming niður í um 460 þúsund fjár. Sauðfjárbú á Íslandi eru nú skráð um 1.400 talsins, þar af eru um 500 með færri en hundrað ærgildi. Bú með yfir 200 ærgildi eru hins vegar aðeins ríflega 600 talsins en það er sá fjöldi sem ætla má að hafi fullt starf af þessum búskap. Sauðfjárbændur hafa í gær og í dag setið á aðalfundi í Bændahöllinni og þar hafa birst sölutölur sem vekja vonir um að hagur bænda gæti farið að skána. Jóhannes Gunnarsson, formaður Landsamtaka sauðfjárbænda, segir söluaukninguna á síðasta ári hafa verið 13,5% sem sé suðvitað stórkostlegt. Og að stefnir í að þessi þróun haldi áfram. Það verð sem sauðfjárbændur fá fyrir kjötið hefur á síðustu fjórum árum hækkað um aðeins fjögur prósent. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 18 prósent og laun almennings um 28 prósent. Jóhannes segir það ekkert launungarmál að bændur hafa barist í bökkum og hagfræðilega sé það vitleysa að vera sauðfjárbóndi - en nú sé lag að blása til sóknar.  Mikil söluaukning innanlands veldur þó áhyggjum um að ekki verði til nægilegt kjöt til útflutnings. Jóhannes segir samt búið að vinna nokkra góða markaði en til að þjóna þeim mörkuðum þurfi að vera a.m.k. 15 prósent útflutningsskylda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×