Innlent

Hættulegar aukaverkanir gigtarlyfs

Gigtarlyfið Bextra verður tekið af markaði á næstunni vegna gruns um hættulegar aukaverkanir. Fyrir hálfu ári var gigtarlyfið Vioxx innkallað af sömu ástæðu. Eftir viðræður Lyfjastofnunar Evrópu og Lyfja- og matvælastofnunar Bandaríkjanna við Pfizer-lyfjaframleiðandann var ákveðið að hætta sölu og dreifingu á Bextra. Lyfið kom á markað hérlendis í október árið 2003 og var selt fyrir 15,4 milljónir króna í fyrra. Ekki er unnt að fá upplýsingar um nákvæman fjölda notenda hér á landi en fjöldi dagskammta á hverja þúsund íbúa er 1,54 sem gefur þá hugmynd að notendur gætu verið eitthvað á annað þúsund á hverjum degi. Hættulegar aukaverkanir Bextra eru fyrst og fremst slæm áhrif á hjarta- og æðakerfi. Bextra er ekki fyrsta gigtarlyfið sem tekið er af markaði vegna þessa því Vioxx var tekið af markaði í október í fyrra og búið er að gefa út viðvörun vegna gigtarlyfsins Celebra. Aðspurður hvers vegna ekki sé vitað um umræddar aukaverkanir áður en lyfin eru sett á markað segir Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir að áður en þau fari á markaðinn séu gerðar rannsóknir með þau á nokkur þúsund sjúklingum að jafnaði. Það sé hins vegar oft ekki nægilegt, enn fleiri sjúklingar verði að taka lyfin í miklu magni og þannig varð ekki ljóst með aukaverkanir Vioxx fyrr en sjúklingar höfðu tekið lyfið í eitt og hálft ár. Matthías segir suma sjúklinga sem eiga erfitt með að þola gömlu lyfin einfaldlega kjósa að taka þessi lyf áfram, þrátt fyrir áhættuna, þar sem þau auki lífsgæði þeirra. „Aðalatriðið er að engum upplýsingum sé leynt fyrir sjúklingum heldur ræði læknirinn og sjúklingur bæði það gagn og ógagn sem lyfin geta valdið,“ segir Matthías.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×