Innlent

Helstu auðlindir Íslands?

Fimm kílómetra djúpar borholur með um sex hundrað gráðu heitri gufu gætu orðið helstu auðlindir Íslands ef tilraunaboranir Landsvirkjunar og samstarfsfyrirtækja ganga vel. Landsvirkjun hefur, ásamt Hitaveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkustofnun, unnið að undirbúningi djúpborunar við borholur á Reykjanesi síðustu fjögur ár. Borað verður á fjögurra til fimm kílómetra dýpi en talið er að þar sé 450 til 600 gráðu heit gufa. Hefðbundnar borholur á Reykjanesi eru tveggja til þriggja kílómetra djúpar og verður notast við þær við tilraunaboranirnar. Björn Stefánsson, deildarstjóri virkjunardeildar Landsvirkjunar, segir að verið sé að hefja borun á fyrstu borholunni þó ekki hafi verið formlega ákveðið að hefja verkið. Kostnaður við boranirnar er talinn nema um 1,5-2 milljörðum króna og ef niðurstöðurnar verða jákvæðar er talið að nýtanlegar orkuauðlindir Íslands muni stóraukast. Björn segir þetta hafa áhrif á mat á orkuforða landsins, þ.e.a.s. þann sem liggi í háhitasvæðunum. Hann leggur samt áherslu á að þetta sé langtíma þróunarverkefni sem ekki sé búist við að verði að veruleika á allra næstu árum.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×