Sport

Hverjir eru Charlton?

Það er óhætt að segja að franski knattspyrnustjórinn Alain Perrin, sem tók við Portsmouth í vikunni, mæti til leiks í ensku knattspyrnunni með hreint borð og lítið af fyrifram gefnum skoðunum á liðum og leikmönnum. Þekkingarleysi hans á ensku knattspyrnunni kom bersýnilega í ljós á blaðamannafundi á fimmtudaginn þar sem hann viðurkenndi að hann vissi lítið um helstu stjörnu Portsmouth, nígeríska framherjann Yakubu, og þekkti hvorki haus né sporð á Charlton, mótherjum Portsmouth um helgina. "Hverjir eru Charlton?" spurði Perrin sakleysislega á fundinum og viðurkenndi að hann hefði aldrei heyrt minnst á félagið. "Ég veit ekkert um að það. Ég læt Joe um þau mál," sagði Perrin og vísaði ábyrgðinni á hendur Joe Jordan, aðstoðarmanni sínum. Það var líka komið að tómum kofanum hjá Perrin þegar hann var spurður um leikmenn Portsmouth, því hann sagðist ekki þekkja einn einasta þeirra vel. Hann gat þó komið þeim skilaboðum áleiðis að hann vildi halda sínum bestu mönnum og að hann hygðist ekki gera miklar breytingar á liðinu. Perrin gat sér gott orð sem þjálfari hjá Troyes og kom þeim úr fjórðu deildinni upp í efstu deild áður en hann tók við Marseille. Dvölin þar endaði hins vegar með látum eftir að hann var ásakaður um kynferðislega áreitni við konu sem starfaði hjá félaginu. Hvað sem öðru líður þá er eins gott fyrir Perrin að bretta upp ermarnar og fara að kynna sér enska boltann - það veitir svo sannarlega ekki af því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×