Innlent

Falsaðar happaþrennur til lögreglu

Fölsun á happaþrennum hefur verið kærð til lögreglunnar í Reykjavík, sem er með málið í rannsókn. Eigandi söluturns sem Fréttablaðið ræddi við sagði að mörgum sinnum hefði verið reynt að framvísa fölsuðum happaþrennum í söluturninum hjá sér. Nýverið hefði það tekist og viðkomandi fengið greiddar út peningaupphæðir. Afgreiðslustúlkurnar hefðu nýverið hafið störf og hefðu ekki verið nógu vel á varðbergi. "Þetta hefur verið gert með því að upphæð hefur verið tekin af einni happaþrennu og límd á aðra til að fá þrjár samsvarandi tölur og þar með vinning. Það er mikið reynt við fimm þúsund krónurnar." Hann sagði að í þeim þremur tilvikum sem starfsfólkið hefði greitt út falsaðar happaþrennur hefði verið um fimm þúsund krónur að ræða í hvert sinn. Málið hefði farið til lögreglu, en grunur léki á hver hefði verið að verki. Hann kvaðst hafa sett upp viðvörunarskilti í söluturninum hjá sér, þar sem starfsfólk væri varað við tilraunum til falsana. "Ég hef verið með happaþrennurnar til að styðja málefnið, því það er lítið upp úr þeim að hafa," sagði eigandinn, sem kvaðst vera farinn að hugsa sig tvisvar um eftir falsanirnar. Hann sagði þó að Happdrætti HÍ hefði tekið á sig skellinn í þetta sinn þótt söluturninn væri ábyrgur. Söluaðilar fengju svo lítið fyrir sinn snúð að það hefði tekið sig tæpt ár að vinna þetta tap upp ef Happaþrennan hefði ekki hlaupið undir bagga.. Steinunn Björnsdóttir deildarstjóri í happaþrennu Háskóla Íslands staðfesti að fölsunin á happaþrennum hefði verið kærð til lögreglu, en hún sagði það sjaldgæft að fólk reyndi þetta og enn fátíðara að það tækist. "Við erum alltaf að ræða þetta við fólk á sölustöðunum," sagði hún," þannig að það á að vera vakandi fyrir þessum hlutum. Við höfum ekki orðið mikið vör við tilraunir af þessu tagi í gegnum tíðina. En fólk reynir þetta."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×