Innlent

Brugðist við ávísun ávanalyfja

Með lyfjagagnagrunni verður hægt að hindra að fíklar fái í vaxandi mæli ávísað ávanalyfjum af læknum, segir Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir. Hann segir embættið viðurkenna að ávísun lyfjanna sé verulegt vandamál. Í kjölfar þeirra ummæla yfirlæknis SÁÁ um að stemma verði stigu við þeim fjölda sjúklinga sem háðir séu lyfjum sem læknar hafa ávísað hefur Landlæknisembættið ákveðið að að grípa til aðgerða. Embættið stefnir að því að taka í notkun á næstunni svokallaðan lyfjagagnagrunn sem veitir því aðgang að öllum útskriftum lækna á lyf, hvort sem það eru eftirritunarskyld lyf eða önnur ávanalyf. Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir telur brýnt að grípa til aðgerða vegna ávanalyfja sem læknar ávísa. Hann segir aðspurður að það sé alvarlegt mál þegar fólk leiti eingöngu eftir lyfi til að svala fíkn sinni í stað þess að nota það til að draga úr þjáningu eða minnka sjúkdómseinkenni. Aðspurður hvernig tekið verði á þessu vandamáli segir Matthías að fylgst verði náið með því hvernig læknar skrifi út lyf og hvaða sjúklingar fái lyfin. Embættið geti til dæmis séð ef sjúklingur gangi á milli lækna og fái hjá þeim sama lyfið á stuttu tímabili. Í þeim tilvikum verði hægt að hafa samband við læknana og mælst til þess að aðeins einn þeirra skrifi út lyf fyrir viðkomandi. Þannig sé haldið utan um lyfjgjöf viðkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×