Sport

Ofbeldi í íshokkíi fordæmt

Rene Fasel, forseti alþjóða íshokkísambandsins, hefur fordæmt ofbeldi í evrópskum íshokkídeildum. Í langri grein, sem Fasel skrifaði á dögunum, kemur m.a. fram að sum lið séu svo harðsvíruð að í stað þess að leggja andstæðinginn að velli með leikni einbeita leikmenn liðanna sér frekar að því að skaða bestu leikmenn mótherjanna. "Úrslitakeppnir í mörgum evrópskum löndum eru að sýna leikinn í mjög ljótri mynd," fullyrti Fasel í grein sinni. "Slagsmál og slæmar blokkeringar sem leiða af sér alvarleg meiðsli eru nánast orðin daglegt brauð." Fasel tók dæmi úr rússnesku deildinni fyrir nokkrum vikum. "Þar áttust við tvö af færustu liðum deildarinnar en leikurinn endaði með nýju meti þar sem leikmenn voru samtals 322 mínútur utan vallar. Þurfum við annað Bertuzzi-atvik til að vakna til lífsins eða þarf einhver að láta lífið á svellinu?" Átti Fasel þar við Todd Bertuzzi, leikmann Vancouver Canucks í NHL-deildinni, sem stórslasaði einn af andstæðingum sínum og var dæmdur í ævilangt keppnisbann fyrir vikið. Íþróttaspekingar víða um heim hafa ritað um málið og telja margir ástæðuna vera verkfall NHL-deildarinnar en fjölmargir leikmenn úr deildinni hafa fært sig yfir til Evrópu og gert samninga við lið þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×