Erlent

Hefur engar vísbendingar um lík

Danska lögreglan hefur engar vísbendingar fengið um lík sem fannst í Kaupmannahöfn í morgun, en myndir af því voru birtar í dönskum fjölmiðlum í dag. Gengið var fram á sundurhlutað líkið nokkur hundruð metra frá þeim stað, sem fætur og hendur af því fundust á laugardag. Göngutúr Kaupmannahafnarbúa með hundinn sinn snemma í morgun endaði heldur óskemmtilega þegar hann gekk fram á lík af manni. Líkið var af manni á fertugsaldri sem er sagður að öllum líkindum danskur og var það í þremur hlutum. Líkið fannst í tröppum í húsasundi á Aðalgötu í miðborg Kaupmannahafnar, nokkur hundruð metrum frá Klerkagötu þar sem tveir fótleggir og handleggur fundust við ruslagám í fyrradag. Fótleggirnir voru sagaðir af við læri og handleggur við olnboga. Danska lögreglan segir lækni meta það svo að áverkarnir séu viðvaningslegir, jafnvel að beitt hafi verið vélsög og samræmist ekki því sem tíðkist við krufningu. Veðurblíða hefur verið í Danmörku um páskahelgina, en óhætt er að segja að fréttin hafi varpað skugga á páskahald Dana. Umræða um stór sakamál á Íslandi snýst oft um starfshætti lögreglunnar. Það er óhætt að segja að danska lögreglan hafi mjög fljótlega í þessu máli ákveðið að leita til almennings eftir upplýsingum. Líkamshlutarnir fundust á laugardagsmorgun og líkið í morgun. Í hádeginu í dag birti danska lögreglan mynd af andliti mannsins ásamt ítarlegri lýsingu á útliti hans. Maðurinn var með tveggja daga skeggbrodda en ekki er talið að hann hafi verið myrtur í sundinu þar sem líkið af honum fannst í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×