Erlent

Segir fólk hafa orðið mjög hrætt

Birna Halldórsdóttir, sem er á vegum Rauða krossins í Banda Aceh á Súmötru, segir fólk hafa orðið mjög hrætt þegar skjálftinn reið yfir eyjuna fyrr í dag enda séu flestir minnugir flóðbylgjunnar á annan dag jóla. Birna segjir að jörð hafi skolfið öðru hverju í héraðinu. Klukkan rúmlega fjögur hafi jörðin byrjað að skjálfa og hún hafi haldið að þetta yrði eins og venjulega en svo hafi jörðin hrist enn meira og lengur. Það hafi endað með því að hún hafi hlaupið út úr húsi eins og aðrir í húsunum í kring. Fólk hafi tekið föggur sínar því það hafi haldið að önnur flóðbylgja væri á leiðinni þar sem jarðskjálftinn hafi verið svo snarpur. Birna segir að í um hálftíma eða 45 mínútur hafi verið algjör ringulreið í borginni en nú séu hlutirnir að róast. Aðspurð hvort fólk sé mjög hrætt segir Birna að fólk í því hverfi sem hún búi hafi orðið fyrir áföllum í flóðbylgjunni annan dag jóla og það sé mjög hrætt. Aðspurð um skemmdir á svæðinu segir Birna ekki halda að þær hafi orðið miklar. Húsið sem hún búi í sé í lagi en rafmagnið hafi farið. Birna segir fólk á svæðinu enn hrætt við að ný flóðbylgja komi þegar jörð skelfi eins mikið og hún gerði í dag. Hún segir að lögreglumenn fari um hverfið hennar og vari fólk við ef von sé á flóðbylgju með því að skjóta upp í loftið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×