Erlent

Segja miklar skemmdir í skjálfta

Öflugur jarðskjálfti sem mældist 8,2 á Richterskvarða varð skammt undan strönd Súmötru síðdegis. Fregnir berast af miklum skemmdum en sérfræðingar segja minni líkur á flóðbylgju þeirri sem reið yfir annan dag jóla á sama svæði. Það var skömmu fyrir klukkan fimm að íslenskum tíma að fyrstu fregnir bárust af skjálftanum sem varð skammt undan ströndum Súmötru, ekki langt frá þeim stað sem skjálftinn annan dag jóla varð, eða tvö hundruð kílómetra vestur af Sibolga á Súmötru. Jarðskjálftamælar gefa til kynna að skjálftinn hafi orðið níu mínútur yfir fjögur. Skjálftinn stóð í tvær til fimm mínútur og sjónarvottar segja nokkrar skemmdir hafa orðið - sumir segja meiri skemmdir en annan dag jóla. Það þýðir þó ekki að skjálftinn hafi verið öflugri heldur kann hann að hafa verið nær landi eða upptökin ekki jafn djúpt í bergi. Skjálftinn var á bilinu 8,2-8,5 á Richter samkvæmt mælingum japönsku veðurstofunnar sem notast við annan mælikvarða. Skjálftinn annan dag jóla var nokkuð sterkari, 8,9 á Richter. Fréttastofa Sky hefur eftir sérfræðingum að skjálftinn í dag sé þrjátíu sinnum kraftminni. Yfirvöld í löndunum næst skjálftamiðjunni og reyndar á Indlandi og Srí Lanka hafa gefið út viðvaranair enda mikilvægt að fólk forði sér þegar í stað frá ströndinni og upp á land ef ske kynni að flóðbylgja myndaðist. Engar fregnir hafa þó borist af flóðbylgju og jarðskjálftafræðingar sögðu að líkast til færi bylgjan í áttina að eyjunni Máritíus ef hún hefði myndast. Engu að síður hafa borist fregnir af skelfingu á Taílandi og á austurströnd Srí Lanka hefur verið skipað fyrir um brottflutning fólks og hið sama gildir um Indland. Ferðamenn á hótelum í Taílandi sem haft hafa samband við Sky-fréttastofuna segja að þar hafi mikill ótti gripið um sig. Enn sem komið er hafa ekki borist fregnir af flóðbylgju en ekkert kerfi er fyrir hendi í Indlandshafi til að mæla bylgjur hafsins og vara við flóðbylgjum og því er ekki enn vitað hvort að flóðbylgja hefur myndast. Jarðskjálftafræðingar segja víst að flóðbylgja yrði mun minni en sú sem kostaði þrjú hundruð þúsund manns lífið 26. desember síðastliðinn. Jarðfræðingar segja raunar nánast útilokað að sambærilegur skjálfti og flóðbylgja verði á næstunni enda tíminn á milli hamfara af þessu tagi mældur í öldum. Jarðskjálftafræðingar hafa þó sagt líkur á öðrum öflugum jarðskjálfta á sama svæði og flóðbylgjan varð. Skjálftinn annan dag jóla jók í raun líkurnar á öflugum eftirskjálftum, einkum eftir tveimur öðrum brotalínum skammt frá, annars vegar Súmötrubrotalínunni, þar sem öflugur jarðskjálfti gæti orðið, og svo í Sunda-skurðinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×