Innlent

Vorboðar víða um borg

Nú er lóan komin og einnig fyrsti vorboðinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þar sem huðnan Dásemd bar kiðlingi. Huðnan Dásemd bar gráflekkóttum kiðlingi í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í gær. Geitur eru eitt landnámsdýranna og í upphafi byggðar var oft talað um þær sem kýr fátæka mannsins. Þær gáfu bændum mjólk en þurftu ekki eins kjarnmikið fóður og kýrnar. Í dag eru nokkrir bændur með geitur og eru þeir margir hverjir að athuga möguleika sína svo hægt verði að komast hjá útrýmingu stofnsins. Unnur Sigurþórsdóttir, deildarstjóri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, segir að um 400 geitur séu á landinu og þess vegna séu þær í útrýmingarhættu. Hún viti ekki hversu miklu Húsdýragarðurinn bjargi en bændur sem haldi geitur hafi af þessu töluverðar áhyggjur og séu að vinna í sínum málum. Aðspurð hvort hægt sé að leggja geitur sér til munns segir Unnur að rétt eins og kindur og lömb sé geitur og kiðlingar borðaðir. Hún hafi smakkað geitakjöt en það hafi ekki jafnast á við lambakjöt en hafi bragðast ágætlega samt. Rétt er að taka fram að nýi kiðlingurinn verður ekki étinn heldur sér hann fram á langa lífdaga í Húsdýragarðinum. Tilkoma hans ber einnig með sér að vel fer um geiturnar í garðinum því gott yfirlæti er forsenda þess að dýrin fjölgi sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×