Erlent

Róttækustu breytingar í sögu SÞ

Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, kynnti hugmyndir sínar um breytingar á skipulagi og stefnu samtakanna fyrir Allsherjarþinginu í gær. Um er að ræða róttækustu breytingar á samtökunum síðan þau voru stofnsett árið 1945. Nái breytingarnartillögur Annan fram að ganga er ljóst að áherslur SÞ á sviði mannréttinda, þróunarmála og öryggismála munu skerpast og breytast verulega. Fyrirhugaðar kerfisbreytingar á öryggisráðinu hafa vakið einna mesta athygli af tillögum Annan. Þær eru afrakstur vinnu sérfræðinganefndar sem skipuð er gamalreyndum stjórnmálamönnum á borð við Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og voru kynntar í vetrarbyrjun. Tvær tillögur eru einkum til skoðunar og miða báðar að því að láta ráðið endurspegla íbúadreifingu heimsins betur. Önnur tillagan gerir ráð fyrir að sex þjóðir fái fast sæti í ráðinu til viðbótar við þær fimm sem þegar búa við slíkt þó án neitunarvalds, en hin felur í sér að átta veigamikil ríki skiptist á að sitja í ráðinu með reglulegu millibili. Annan stingur upp á að innan vébanda SÞ verði komið á fót sérstöku mannréttindaráði sem mun leysa af hólmi mannréttindanefndina í Genf. Ráðinu yrðu færð umtalsverð völd þannig að vægi þess yrði svipað og öryggisráðsins. Baráttan gegn hryðjuverkum er fyrirferðarmikil í tillögum Annan. Hann skorar á þjóðir heims að hætta hártogunum um skilgreiningu á hryðjuverkum og fallast á að dráp á óbreyttum borgurum geti ekki undir neinum kringustæðum verið réttlætanlegt. Á grundvelli þeirrar skilgreiningar hvatti hann til að nýr sáttmáli gegn hryðjuverkum yrði samþykktur á næsta ári. Tillögur Annan eru settar fram rétt áður en skýrsla um meinta spillingu SÞ í Írak verður kynnt. Kofi Annan og Kojo, sonur hans, liggja undir ámæli um að hafa misnotað aðstöðu sína þegar Írökum var leyft að selja olíu fyrir mat og lyf á árunum 1996-2003. Búist er við þjóðarleiðtogar heimsins taki ákvörðun um tillögur annan á fundi sínum í september á þessu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×