Erlent

Fjölmenn mótmæli víða um heim

Það var ekki bara á Íslandi sem þess var minnst í dag að tvö ár eru liðin frá innrásinni í Írak. Tímamótanna var minnst um allan heim og fjölmennust urðu mótmælin í þeim löndum sem eiga hermenn í Írak. Andstaða almennings við stríðið í Írak virðist síst í rénun ef marka má viðbrögð fólks og mótmæli í dag. Tugþúsundir manna mótmæltu í Japan, Ástralíu og Ítalíu sem eiga hermenn í Írak og mótmæli voru einnig áberandi í Bretlandi og Bandaríkjunum. George Bush Bandaríkjaforseti kom ekki fram opinberlega af þessu tilefni í dag en hann fjallaði um Írak í vikulegu útvarpsávarpi sínu, ræddi um vel heppnaðar kosningar í landinu og sagði að í vinda frelsis og lýðræðis blása um öll Miðausturlönd í kjölfar innrásarinnar. Hann sagði að á þessum degi fyrir tveimur árum hefðu Bandaríkjamenn hafið aðgerð til þess að frelsa Írak í því skyni að afvopna grimma stjórn og frelsa þjóðina og vernda heiminn gegn alvarlegri hættu. Vegna aðgerðanna væri frelsið að skjóta rótum í Írak og bandaríska þjóðin öruggari. Næstu daga kafar fréttastofa Stöðvar 2 ofan ástandið í Írak og afleiðingar stríðsins. Leitað verður svara við þeirri spurningu hvort stríðið hafi markað upphafið að einhvers konar frelsis- og lýðræðisbylgju sem nú breiðist út frá Írak til nágrannalandanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×