Erlent

Brutust inn í villu Berlusconis

Um hundrað Sardiníubúar réðust inn í villu Silvios Berlusconis á eyjunni í dag til þess að leggja áherslu á kröfur sínar um sjálfstæði Sardiníu. Fólkið komst að sundlauginni við glæsihúsið áður en lögreglu tókst að reka það út, en talsmaður hópsins segir innbrotið hafa verið pólitískan gjörning ætlaðan til að undirstrika yfirráðarétt íbúa Sardiníu yfir landi á eyjunni. Hluti Sardiníubúa vill fá sjálfstæði frá Ítalíu og sakar ítölsk stjórnvöld um að kæfa sardiníska menningu og tungu. Villa Berlusconis er ekki aðeins umdeild meðal sumra íbúa Sardiníu því náttúruverndarsinnar hafa gagnrýnt forsætisráðherrann fyrir að hafa látið byggja eftirlíkingu af grísku leiksviði við húsið. Stjórnvöld leyfðu byggingu þess með þeim rökum að Berlusconi tæki á móti opinberum gestum í húsinu, en þangað hafa m.a. komið Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Vladímír Pútín Rússlandsforseti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×