Erlent

Líkur á að hamfarir endurtaki sig

Líkur eru á því að hamfarirnar í Indlandshafi endurtaki sig og það frekar fyrr en síðar, samkvæmt nýjum rannsóknum. Núr er reynt að skipuleggja uppbyggingarstarf á svæðinu og útdeila peningum sem hafa þó ekki skilað sér nema að litlum hluta. Bill Clinton og George Bush, fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, fóru fyrir hópi embættismanna og stjórnmálamanna sem ræddu hvernig deila ætti þeim fjármunum sem söfnuðust til styrktar fórnarlömbum flóðbylgjunnar í desember. Meginverkefnið er að samræma uppbyggingarstarfið og koma í veg fyrir að spilling eigi sér stað. Stjórnvöld um víða veröld hafa alls heitið sex milljörðum Bandaríkjadala til hamfarasvæðanna þó að enn sem komið er hafi ekki nema lítill hluti af þeirri upphæð skilað sér. Þá segja yfirmenn hjálparstarfsins að tólf milljarða dollara til viðbótar vanti enn upp á ef vel eigi að takast til við að byggja svæðið upp á nýjan leik. Vísindamenn segja enn mikla hættu á náttúruhamförum á sömu slóðum og flóðbylgjan varð annan dag jóla. Jarðskjálftinn sem henni olli hefur margfaldað líkur á skjálftum eftir tveimur öðrum brotalínum skammt frá, annars vegar Súmötrubrotalínunni, þar sem öflugur jarðskjálfti gæti orðið, og svo í Sunda-skurðinum. Verði skjálfti þar eru líkur á að hann yrði mjög öflugur og myndi valda mikilli flóðbylgju. Allar líkur eru á að Súmatra yrði mjög illa úti og þar sem skurðurinn er skammt frá eynni yrði ekki tími til að gefa neinar viðvaranir. Vísindamennirnir segja vonlaust að áætla hvenær skolfið gæti á þessum stöðum en benda á að jarðskjálftar komi oftar en ekki í kippum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×