Erlent

Offita gæti bjargað velferðarkerfi

Offita gæti komið velferðarkerfinu til bjargar. Vísindamenn í Bandaríkjunum hafa komist að því að almannatryggingum og ellilífeyriskerfum sé borgið, þar sem stór hluti offeits fólks deyi ungur og verði því ekki byrði á kerfinu. Víðast hvar í hinum vestræna heimi standa ríkisstjórnir frammi fyrir sama vanda: eldra fólki og öldruðum fjölgar hlutfallslega mikið meira en yngra fólki og því er það ríkjum um megn að fjármagna almannatryggingar, félagsaðstoð og ellilífeyriskerfi. En svo virðist sem vísindamenn í Chicago hafi óvart fundið hugsanlega lausn vandans, sem er þó ekki góð tíðindi fyrir alla. Í grein sem þeir birtu í læknatímaritinu New England Journal of Medicine greina þeir frá því, að allt bendi til þess að offita verði þess valdandi að meðallífaldur Bandaríkjamanna lækki. Hann er nú í sögulegu hámarki, rétt rúm 77 ár og fram til þessa var talið að líf meðaljónsins myndi enn lengjast. Verði ekki breyting á venjum Bandaríkjamanna munu þeir hins vegar áfram fitna og í stað þess að offita lækki meðalaldurinn um fjóra til níu mánuði gæti hún valdið því að meðalaldurinn lækkaði um allt að fimm ár innan hálfrar aldar. Feitir eiga frekar á hættu en aðrir að fá hjartasjúkdóma sem í tengslum við aðra kvilla valda því að feitt fólk lifir ekki jafn lengi og aðrir. Vísindamennirnir segja þetta geta breytt landslaginu hvað velferðarkerfið varðar því að ellilífeyrir þessa fólks falli niður og það sé ekki byrði á kerfinu jafn lengi og þeir sem eldri verða. Aðrir vísindamenn mótmæla þessu og segja feita einfaldlega þyngri byrði á meðan þeir lifa. Hjartasjúkdómar, sykursýki og liðagigt séu mun algengari hjá feitum og það kosti heilbrigðiskerfið dágóðan skilding að sinna þeim. Að auki sé ekki rétt að ganga að því sem gefnu að engin breyting verði á vaxtarlagi Bandaríkjamanna næstu hálfa öld. Mikil áhersla sé nú lögð á heilbrigðari lifnaðarhætti og að enginn hefði látið sér detta í hug árið 1970 að um aldamótin væri víða bannað að reykja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×