Erlent

Blendin viðbrögð við skipuninni

Óhætt er að segja að heimsbyggðin skiptist í tvö horn í afstöðu sinni til tilnefningar Paul Wolfowitz í embætti bankastjóra Alþjóðabankans. Þeir sem munu á endanum véla um málið eru þó hlynntir skipaninni. George W. Bush tilkynnti í fyrradag ákvörðun sína um að tilnefna Paul Wolfowitz aðstoðarlandvarnaráðherra í bankastjóraembætti Alþjóðabankans. Meginverkefni stofnunarinnar er að ráðast gegn fátækt og byggja upp efnahagslíf þróunarlandanna. Sérsvið Wolfowitz eru hins vegar varnar- og öryggismál. Þegar við bætist að hann var einn helsti skipuleggjandi innrásarinnar í Írak kom engum á óvart að tilnefningin yrði gagnrýnd. Bush upplýsti í gær að hann hefði rætt um tilnefninguna við helstu ráðamenn heimsins, til dæmis Tony Blair, Jacques Chirac og Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans. Í París var staðfest að tilnefningin "hefði verið meðtekin" en annars tjáðu ráðamenn sig þar ekki um málið. Koizumi og Jack Straw, utanríkisráðherra Breta, hafa hins vegar báðir lýst yfir ánægju sinni með Wolfowitz. Talsmenn þróunar- og hjálparsamtaka hafa hins vegar gagnrýnt tilnefninguna harðlega og jafnvel fordæmt hana. Fjölmiðlar í þriðja heiminum hafa sömuleiðis látið í ljós tortryggni. Þetta er í annað skiptið á fáeinum vikum sem Bush útnefnir harðlínumann í áhrifastöðu hjá alþjóðastofnun. Á dögunum skipaði hann John Bolton, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra, sem sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Stjórn bankans tekur lokaákvörðun um ráðninguna og þar hafa auðugustu þjóðir heims töglin og hagldirnar. Bandaríkjamaður situr jafnan í stól bankastjóra Alþjóðabankans á meðan Evrópumaður veitir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum forstöðu. Bandaríkin beittu neitunarvaldi í fyrra þegar stungið var upp á Þjóðverja sem forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Gagnrýnendum til huggunar má geta þess að árið 1968 var ekki síður umdeildur maður skipaður bankastjóri. Það var Robert McNamara, varnarmálaráðherra og helsti arkitekt Víetnamstríðsins. Hann þykir einn farsælasti stjórnandi Alþjóðabankans fyrr og síðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×