Erlent

Mesta atvinnuleysi í 65 ár

Efnahags- og atvinnuástandið í Þýskalandi er afar slæmt. Atvinnuleysi hefur ekki verið meira síðan fyrir Seinni heimsstyrjöld og fjöldi þýskra stórfyrirtækja ætlar að segja upp fólki á næstunni. Skuldir ríkissjóðs eru í hámarki og hafa verið yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins í þrjú ár. Allt hefur þetta haft áhrif á vinsældir ríkisstjórnar Gerhards Schröders kanslara og því var nauðsynlegt fyrir hann að bregðast við. Það gerði hann í morgun þegar hann kynnti þingi róttækar tillögur sem miða að því að skapa störf og koma efnahagslífinu í gang, en þar ríkir nokkur stöðnun. Róttækasta tillagan er skattalækkun fyrir fyrirtæki. Skattahlutfall þeirra yrði lækkað úr 25 prósentum í 19 prósent. Að auki verður smáfyrirtækjum boðið upp á hagstæð lán samkvæmt tillögunum, ríkið mun fjárfesta í samgöngumannvirkjum ýmis konar og skipulag ríkis- og sambandslanda verður endurskipulagt. Með þessu vonast Schröder einnig til að slá vopnum úr höndum íhaldsmanna í Kristilega demókrataflokknum sem sótt hafa hart að honum undanfarið. Þeir styðja og eiga jafnvel frumkvæði að sumum þeim tillögum sem Schröder lagði til í dag. Kanslarinn gerir sér ennfremur vonir um að koma í veg fyrir neyðarlegt tap í sambandslandskosningum í Norderhein-Westphalen í maí en Jafnaðarmannaflokkur hans hefur stjórnað þar samfellt í 39 ár. Ósigur þar er hins vegar hugsanlegur miðað við niðurstöður kannana og gengju þær eftir yrði það mikið áfall fyrir Schröder.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×