Sport

Kewell er sár

Ástralski knattspyrnumaðurinn Harry Kewell hjá Liverpool, sagði í viðtali við enska dagblaðið Sun að hann væri sár út í ummæli knattspyrnustjóra síns varðandi meiðslin sem hann hefur átt við undanfarið. Rafa Benitez, stjóri Liverpool lýsti yfir furðu sinni á meiðslamálum Kewell um daginn og sagði í viðtali við fjölmiðla að hann hreinlega skildi ekki hvað væri að honum.  "Einn daginn er það nárinn, annan ökklinn og svo er hann alheill næsta dag og vill spila.  Ég er hættur að skilja þetta", sagði Benitez. Eitthvað sárnaði Kewell við þessi ummæli og hefur hann ásamt umboðsmanni sínum gefið það út að hann furði sig á ummælum stjórans í sinn garð, enda hafi hann lagt mikið á sig til að reyna að leika fyrir félagið þótt meiddur væri.  "Hver myndi ekki vilja leika í Meistaradeildinni eða í úrslitum bikarsins.  Ég átti við margvísleg meiðsli að stríða en ég harkaði af mér og spilaði því ég vil gera allt til að hjálpa liðinu að vinna leiki.  Mér var sagt að þessi meiðsli myndu lagast en þau hafa þvert á móti versnað", sagði Kewell, sem er sagður eiga við ökkla-, nára og hásinarmeiðsli að stríða.  "Ég hef lagt líkamann að veði fyrir félagið og mér finnst óréttlátt af mönnum að vera að gagnrýna mig fyrir það", bætti hann við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×