Viðskipti innlent

Hækkun vaxta betri nú en síðar

Það kraumar í kötlum efnahagslífsins og nokkrir hitamælanna komnir á rautt. Spurningin um ofhitnun Íslandsvélarinnar var umfjöllunarefni morgunverðarfundar Verslunarráðs í gær. Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, taldi Seðlabankann hafa staðið sig vel í peningamálastjórninni, en taldi óþolinmæði hafa gætt við síðustu stýrivaxtahækkun bankans. Hann sagði bankann verða að finna hina einu réttu línu með vaxtahækkunum þar sem fyrirtæki í útflutnings- og samkeppnisgreinum séu pressuð til að hagræða en nái á sama tíma að halda uppi nægilegri arðsemi og halda tiltrú lánadrottna sinna. Ekki var þó að heyra á aðalhagfræðingi Seðlabankans, Arnóri Sighvatssyni, að ástæðulaus óþolinmæði hefði ráðið síðustu stýrivaxtahækkunum. Arnór sagði Seðlabankann ekki telja raunstýrivexti sérstaklega háa í sögulegu samhengi. Hann sagði hættu á að án aðhaldssamrar peningamálastefnu nú myndi raungengi sennilega á endanum fara í svipað horf og ef henni væri beitt. Hins vegar yrði verðbólga meiri við óhjákvæmilega aðlögun gengis í framkvæmdalok. Við þær aðstæður þyrfti enn hærri stýrivexti til að halda verðbólgu í skefjum, en ef þeim væri beitt nú. "Af þessum ástæðum hefur Seðlabankinn talið mun ákjósanlegra að glíma við óhjákvæmileg og vissulega óæskileg hliðaráhrif aðhaldssamrar peningastefnu nú fremur en síðar." Seðlabankinn gefur út Peningamál í næstu viku og er þá búist við stýrivaxtahækkun. Hagfæðingar sem rætt var við búast við hækkun á bilinu 0,25 til 0,75 prósentu hækkun stýrivaxta. Sérfræðingar sem Fréttablaðið ræddi við telja að túlka megi orð aðalhagfræðings bankans í þá átt að Seðlabankinn muni hugsanlega hækka vexti á árinu meira en menn hafa almennt verið að spá.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×