Viðskipti innlent

Útlit fyrir mjög erfitt ár

Útlit er fyrir að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja verði mjög erfiður í ár, meðal annars sökum sterks gengis íslensku krónunnar. Gengi krónunnar hélt áfram að styrkjast í gær . Fram kom í Hálf-fimm fréttum KB banka í gær að raungengi gagnvart Bandaríkjadal hafi ekki verið lægra í þrettán ár og aðrir gjaldmiðlar hafa einnig lækkað hratt gagnvart krónunni. Valdimar Halldórsson hjá greiningardeild Íslandsbanka segir að árið í ár verði erfitt vegna þess hve sterk krónan er nú. Hann segir að útlit sé fyrir að gengið verði áfram sterkt út árið. Í fyrra var afkoma sjávarútvegsfyrirtækja bærileg en þar réð miklu bókhaldslegur hagnaður sökum lækkunar erlendra skulda vegna jákvæðs gengismunar. Valdimar segir ólíklegt að slíkt verði upp á teningnum í ár og því muni reyna á reksturinn. "Þetta verður erfitt ár en það hjálpar sjávarútvegsfyrirtækjunum að verð á sjávarafurðum er hátt. Það vinnur á móti því hversu sterk krónan er," segir hann. Valdimar hefur tekið saman rekstrarniðurstöður sjávarútvegsfyrirtækja í fyrra og þar kemur fram að samanlagður hagnaður þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem skráð eru á markaði var 4,4 milljarðar króna. Stór hluti þessa hagnaðar er hins vegar vegna jákvæðs gengismunar. Í samantekt Valdimars kemur einnig fram að framlegð hjá Vinnslustöðinni var töluvert hærri en hjá öðrum skráðum sjávarútvegsfyrirtækjum í fyrra. Að sögn Valdimars verður þó að taka tillit til ólíkrar starfsemi fyrirtækjanna. .





Fleiri fréttir

Sjá meira


×