Erlent

Hóta Sýrlendingum aðgerðum

Bandaríkjastjórn boðar aðgerðir gegn Sýrlendingum fari þeir ekki bæði með herlið sitt og leyniþjónustu út úr Líbanon fyrir maílok. Stjórnvöld í Bandaríkjunum telja ekki nóg að Sýrlendingar fari með herlið sitt burt frá Líbanon heldur eigi þeir líka að kalla allt leyniþjónustulið sitt heim. George Bush sagði í gær að leyniþjónusta Sýrlendinga hefði mikil áhrif á stjórnkerfið í Líbanon og því yrði að kalla hana burt með herliðinu. Bush sagði að bæði herliðið og leyniþjónustan yrðu að vera farin fyrir kosningar í landinu í lok maí ef mark ætti að vera á þeim takandi. Færi svo að stjórnvöld í Sýrlandi myndu skella skollaeyrum við þessari beiðni sagðist Bush ætla að ráðfæra sig við stuðningsþjóðir sínar um að grípa hugsanlega til aðgerða gegn Sýrlendingum. Omar Karami, forsætisráðherra Líbanon sem sagði af sér embætti fyrir nokkrum dögum vegna almennra mótmæla í landinu, var í dag endurskipaður í embætti af forseta landsins. Karami er almennt álitinn handbendi Sýrlendinga og sitji hann áfram í embætti telja menn víst að lítil breyting verði á sýrlenskum áhrifum og yfirráðum í Líbanon.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×