Erlent

Sendir til pyntingastjórna

Bandaríska leyniþjónustan CIA hefur á síðustu árum flutt fjölda grunaðra hryðjuverkamanna til landa þar sem pyntingar viðgangast. Mannréttindasamtök hafa mótmælt þessum flutningum harðlega. Eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 voru CIA veittar mjög rúmar heimildir til að færa grunaða hryðjuverkamenn frá Bandaríkjunum til yfirheyrslna í löndum þar sem pyntingar eru notaðar. Í grein í New York Times um helgina er fullyrt að á bilinu 100-150 manns hafi verið fluttir í þessu skyni til landa á borð við Egyptalands, Sýrlands og Sádi-Arabíu. Blaðið nefnir nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Þannig var Þjóðverji af líbönsku bergi brotinn handtekinn í Serbíu árið 2003 og var flogið með hann til Afganistan. Í fimm mánaða löngu varðhaldi var hann barinn og gefið ólyfjan. Síðan var honum sleppt án ákæru. Bandarískir embættismenn þvertaka fyrir að þau sendi grunaða misindismenn í hendur stjórnvalda annarra ríkja án þess að ganga vandlega úr skugga um að meðferð þeirra sé mannúðleg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×