Innlent

Ekki boðið á fund um neyðarlínu

Fulltrúa slökkviliðs Ísafjarðar var ekki boðið á fund um neyðarlínuna í kjölfar mistaka hjá henni þegar sjúkrabíll var kallaður frá Ísafirði þegar maður hneig niður í Bolungarvík. Mistökin fólust í því að kalla ekki út bíl frá Bolungarvík. Maðurinn sem veiktist lést en ekki er hægt að fullyrða hvort hann hefði lifað af ef þessi mistök hefðu ekki átt sér stað. Á fundinum, sem haldinn var í Bolungarvík í fyrradag, voru fulltrúar neyðarlínunnar, Heilbrigðisstofnunar Bolungarvíkur, björgunarsveitarinnar Ernis auk bæjarstjórans í Bolungarvík, yfirlögregluþjónsins á Ísafirði og yfirlæknisins þar. Fulltrúa slökkviliðsins á Ísafirði var hins vegar ekki boðið á fundinn. Í samtali við Bæjarins besta segist Þorbjörn Sveinsson slökkviliðsstjóri afar ósáttur við að hafa ekki verið boðaður á fundinn en ýmsir hafi reynt að koma ábyrgð á mistökunum yfir á hans menn. Hann segir fundinn hafa verið tímabæran en undarlegt að halda hann án þeirra sem fóru í útkallið. Í liðinu séu einu atvinnumennirnir á svæðinu og þeir sinni langstærstum hluta sjúkraflutninga á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×