Innlent

Bein grænlenskra á Skriðuklaustri?

Hugsanlega skýrist á morgun hvort bein sem fundust við fornleifauppgröft á Skriðuklaustri séu af grænlensku fólki. Komi það á daginn er það skýr vísbending um að tengsl Íslendinga og Grænlendinga hafi verið meiri en áður var talið. Beinin sem fundust við uppgröftinn að Skriðuklaustri eru af tveimur manneskjum, að því að talið er inúítakonum. Dr. Niels Lynnerup, forstöðumaður Rannsóknarstofu í líffræðilegri mannfræði við réttarlæknisstofnun Kaupmannahafnarháskóla, er kominn til landsins til að rannsaka líkamsleifarnar. Hann segist vona að bráðabirgðaniðurstöður fáist á morgun eða hinn með greiningu en það geti tekið vikur, mánuði eða ár að fá endanlega niðurstöðu og kannski fáist hún aldrei. Lynnerup segir ekki víst að DNA-sýni náist. Hins vegar séu ýmis merki á tönnum og beinum sem gefi vísbendingar. Hann segir vitað að tengsl hafi verið á milli norrænna manna og inúíta og norrænir menn hafi hitt þá á ferðum sínum. Samskiptin hafi tengst vöruskiptum og verið afar tilviljunarkennd. Reynist þessi bein af inúítum varpar það nýju ljósi á tengslin. Lynnerup segir að ljóst sé að ef um inúíta sé að ræða megi draga þá ályktun að nánara samband hafi verið á milli landanna en áður hafi verið talið, en í uppgreftri í kirkjugörðum norrænna manna á Grænlandi hafi ekki enn fundist neinir inúítar grafnir. Á morgun heldur Lynnerup fyrirlestur í Þjóðminjasafninu um hvarf norrænna manna frá Grænlandi. Hann segist telja að raunveruleikinn hafi ekki verið eins dramatískur og hingað til hafi verið talið. Fólk sækist eftir betri lífskjörum eins og sjáist nú til dags og ungt fólk flytji þangað sem það telji sig eiga betri framtíð. Hann haldi að skýringin sé svo hversdagsleg. Ýmislegt bendi til þess að veðurfar hafi versnað og lífsskilyrði norrænna manna í Grænlandi að sama skapi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×