Erlent

Kakkalakkar fangaðir með eigin þef

Hugsanlegt er að hægt verði að nota sérstaka lykt sem kvenkyns kakkalakkar gefa frá sér til þess að hafa hemil á dýrategundinni. Að þessu hafa vísindamenn við ríkisháskólann í New York komist, en þeir hafa unnið að því að efnagreina ferómón sem kvenkyns kakkalakkar senda út til þess að lokka karldýr til sín. Nú hafa vísindamennirnir búið til eftirlíkingu af ferómóninu og segja í grein í vísindatímaritinu Science að hægt verði að nota það til þess lokka kvikindin í gildru, en slíkt hefur verið gert við aðra vágesti eins og mölflugur. Kakkalakkar eru víða illa séðir og hefur þeim hingað til verið eytt með eitri. Með nýju uppfinningunni er vonast til að hægt verði að losa sig við skordýrin á umhverfisvænni hátt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×