Innlent

Strætisvagn skemmdist í eldsvoða

Strætisvagn stórskemmdist í eldsvoða í morgun. Afturhluti vagnsins stóð í björtu báli eftir að eldur kom upp í vélarrúminu. Engir farþegar voru um borð en vagnstjórar fá sérþjálfun í hvernig eigi að bregðast við svona óhöppum. Vagninn var á leið inn á Kirkjusand eftir aukaferð og vagnstjórinn var nýbúinn að hleypa farþegum sínum út á Lækjartorgi. Vagninn var á Sæbraut, á móts við gamla Útvarpshúsið, þegar aðvörunarljós um eld kviknaði í mælaborðinu. Vagnstjórinn drap samstundis á vélinni, opnaði allar dyr og fór með slökkvitæki aftur að vélarrúminu. Í þann mund sem hann kom þar að blossaði upp mikill eldur og dugði slökkvitæki hans hvergi nærri til að slökkva, né slökkvitæki rútubílstjóra sem kom honum til aðstoðar. Slökkviliðinu tókst hins vegar að ráða niðurlögum eldsins á skömmum tíma þegar það kom á vettvang. Vagninn er mikið skemmdur. Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætós, segir að jafnvel þótt farþegar hefðu verið í vagninum hefðu þeir ekki verið í neinni hættu því í öllum vögnunum sé alltaf hægt að „neyðaropna“ ef eitthvað kemur upp á og flóttaleiðir því greiðar. Hann segir svona atburði þó að sjálfsögðu litna alvarlegum augum og nákvæm rannsókn muni fara fram á vagninum til að finna hvað fór úrskeiðis. Ásgeir telur þó ekki ástæðu til að taka aðra vagna af þessari gerð úr umferð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×