Innlent

Þorskhængar syngja og dansa

Norskir fiskifræðingar hafa komist að því að þorskhængar syngja og dansa til að laða til sín hrygnur, sem vilja að þeir svilji hrogn þeirra. Auður Sóldal, fiskifræðingur við norsku Hafrannsóknastofnunina, segir í viðtali við norska útvarpið að söngurinn sé greinilega alveg nauðsynlegur því án hans líti hrygnurnar ekki við hængunum. Þeir hefja daðrið með því að tileinka sér svæði á botninum sem hentar til hrygningar og fara svo að synda þar um í mynstri sem myndar tölustafinn átta. Á meðan á þessu stendur teygja þeir uggana eins langt út frá búknum og hægt er og láta þá titra og gefa svo frá sér djúpt og karlmannlegt hljóð sem minnir einna helst á hægfara, djúpann hjartslátt. Ef þetta tekst allt vel gengur viðkomandi hængur í augun á hrygnunni sem hann hefur augastað á og þau standa saman að viðhaldi þorskstofnsins með því að hún hrygnir og hann dreifir sviljum yfir hrognin, sem brátt breytast svo í lítil þorskseiði. Þar með er líka vitað að þorskhængar svilja ekki hrogn af handahófi heldur bara frá sinni heittelskuðu. Ekki er vitað hvort parið hefur einhver samskipti eftir þetta. Þetta væri nú allt gott og blessað ef hljóðsjár kafbáta næmu ekki mökunarhljóð hænganna og þau yllu ekki uppnámi um borð þar sem sjóliðar misskilja hljóðin og halda að óvinur úr vestri eða austri sé að laumast að sér, allt eftir því hvorum megin víglínunnar viðkomandi kafbátur er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×