Innlent

Tvær lóðir auglýstar á Reyðarfirði

Gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um 1.200, eða 40 prósent, í Fjarðabyggð fram til ársins 2007 eða 2008. Íbúar verði um 4.200 þegar upp er staðið. "Þetta fólk mun vinna bæði í álverinu og í afleiddum störfum sem skapast í sveitarfélaginu," segir Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri. "Starfsemi opinberra stofnana um eflast. Heilbrigðisgeirinn mun vaxa, þá sérstaklega Fjórðungssjúkrahúsi í Neskaupstað og öll heilsugæslan. Verkmenntaskólinn mun gegna ákveðna hlutverki varðandi menntun starfsfólks sem starfar í álverinu." Verslunarkjarni er að rísa á Reyðarfirði og verður fyrsta verslunin í honum opnuð í mars. Reiknað er með að þar vinni um 50 verslunarmenn. Á næstu vikum verða auglýstar tvær lóðir sem liggja að álverinu á Reyðarfirði. "Þær eru sérstaklega ætlaðar fyrir aðila sem vilja þjónusta álverið í framtíðinni. Ef við fáum stóra aðila inn á svæðið þá er möguleiki fyrir þá aðila að þjónusta fleiri álver frá þessum stað," segir Guðmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×