Innlent

Verðlaunað fyrir umfjöllun um Ólaf

Blaðamannaverðlaun ársins 2004 voru afhent á Pressuballi á Hótel Borg í gærkveldi. Það var Árni Þórarinsson, Morgunblaðinu sem hlaut Blaðamannaverðlaun ársins 2004 að þessu sinni. Hlaut hann verðlaunin fyrir ítarlega og greinargóða fréttaskýringu um forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar í aðdraganda forsetakosninganna síðastliðið sumar. Í flokki Rannsóknarblaðamennsku ársins 2004 varð Kristinn Hrafnsson, DV, hlutskarpastur. Hlaut hann verðlaunin fyrir upplýsandi fréttir af örlögum íslensks drengs, Arons Pálma Ágústssonar, í fangelsi í Texas. Bergljót Baldursdóttir, RÚV - Fréttastofu útvarpsins, Morgunvaktinni hlaut verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins 2004, fyrir ítarlega og fróðlega úttekt á stöðu og velferð aldraðra. Í dómnefnd sátu Birgir Guðmundsson formaður, Elín Albertsdóttir, Lúðvík Geirsson og Jóhannes Tómasson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×